Skilar umboðinu og viðræður aftur á byrjunarreit

Ulf Kristersson tókst ekki að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð.
Ulf Kristersson tókst ekki að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð. AFP

Formaður sænska íhaldsflokksins Moderaterna, Ulf Kristersson, hefur skilað stjórnarmyndunarumboði og segir ekki nægan fjölda þingmanna á sænska þinginu styðja myndun borgaralegrar hægristjórnar. 

Þetta sagði Kristersson á blaðamannafundi snemma í morgun. Frestur hans til þess að mynda nýja stjórn hefði runnið sitt skeið á morgun. Sænska ríkisútvarpið greinir frá

Kristersson var veitt stjórnarmyndunarumboð fyrr í vikunni, af Andreas Norlén, forseta sænska þingsins, eftir að Stefan Löfven úr sósíaldemókrötum sagði af sér sem forsætisráðherra. Norlén er sjálfur úr Moderatarna, en lögum samkvæmt ber honum að gæta hlutleysis við úthlutun stjórnarmyndunarumboðsins.

Til myndunar meirihluta þarf 175 þingmenn en fyrirhuguð samsteypustjórn Moderaterna og kristilegra demókrata hefði aldrei haft nema 174 þingmenn, þá með stuðningi Svíþjóðardemókrata og Frjálslynda flokksins. 

Því má þykja líklegt að fyrrnefndum Löfven, sem enn er starfandi forsætisráðherra, verði veitt stjórnarmyndunarumboð. Flokkur hans, Sósíaldemókrataflokkurinn, er sá stærsti í sænskum stjórnmálum og hefur 100 þingmenn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka