Trump stofnunin og fjármálastjórinn ákærð

Trump stofnunin á golfklúbba, hótel og lúxuseignir Trumps.
Trump stofnunin á golfklúbba, hótel og lúxuseignir Trumps. AFP

Trump stofnunin, fyrirtæki Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og fjármálastjóri þess verða ákærð í dag vegna meintra skattalagabrota.  Bandarískir miðlar greina frá þessu. 

Rannsókn á fyrirtækinu og fjármálastjóranum hefur staðið yfir í tvö ár og er þetta fyrsta sakamálið sem er höfðað vegna hennar. Nákvæmt efni ákærunnar hefur ekki verið gefið út. 

Wall Street Journal sagði að búist væri við því að fjármálastjórinn, Allen Weisselberg, verði ákærður fyrir að skjóta undan skatti. 

Donald Trump ásamt syni sínum Donald yngri. Í baksýn sést …
Donald Trump ásamt syni sínum Donald yngri. Í baksýn sést fjármálastjórinn Allen Weisselberg. AFP

Trump kallar málið „nornaveiðar“

Ekki er búist við því að Trump verði ákærður. Hann segir að ákæran sé af pólitískum toga og lýsir málinu sem „framhaldi á mestu nornaveiðar í sögu Bandaríkjanna.“

Umrædd rannsókn miðaði að því að kanna hvort Weisselberg og aðrir stjórnendur innan fyrirtækisins hafi forðast að greiða skatta af fríðindum sem Trump samtökin veittu þeim, t.a.m. skólagjöldum fyrir einkaskóla, lúxusbílum og íbúðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert