Einungis 11% heimsbyggðarinnar bólusett

Bólusetning í Laugardalshöll. Ferlið hefur gengið talsvert hraðar fyrir sig …
Bólusetning í Laugardalshöll. Ferlið hefur gengið talsvert hraðar fyrir sig hér á landi en víða annars staðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á sama tíma og tæp 60% Íslendinga hafa fengið fulla bólusetningu gegn Covid-19 og bólusetning er hafin hjá um 20% til viðbótar hafa einungis 11% heimsbyggðarinnar fengið bólusetningu gegn Covid-19 og er hún hafin hjá 13% heimsbyggðarinnar til viðbótar. 

Eins og áður hefur verið greint frá hafa sérfræðingar áhyggjur af þróun mála og sagt mikilvægt að ná útbreiddri bólusetningu á heimsvísu eins fljótt og auðið er. Að öðrum kosti gæti kórónuveiran náð að stökkbreytast enn frekar í samfélögum þar sem bólusetning er ekki útbreidd.

Tölur Our World in data, sem voru uppfærðar síðast 30. …
Tölur Our World in data, sem voru uppfærðar síðast 30. júní. Síðan þá hefur bólusettum fjölgað lítið eitt á Íslandi. Kort/Our World in data

Einungis eitt prósent Afríkubúa með fulla bólusetningu

Hvað heimsálfurnar varðar þá er staðan best í Norður-Ameríku og verst í Afríku. Í Norður-Ameríku hafa 33% íbúa fengið fulla bólusetningu gegn Covid-19 og er bólusetning hafin hjá tæpum 10% til viðbótar. Í Afríku er staðan aftur á móti þannig að rúmt prósent hefur fengið fulla bólusetningu gegn Covid-19 og er bólusetning hafin hjá svipuðum fjölda. 

Evrópa er næstbest stödd hvað varðar bólusetningar en 28% Evrópubúa eru bólusettir og er bólusetning hafin hjá 13% þeirra.

Unicef hefur að undanförnu kallað eftir styrkjum sem fara munu í bólusetningar í fátækari löndum. 

Til þess að stöðva útbreiðslu Covid-19 þarf að útrýma veirunni alls staðar. Við erum í kapphlaupi við náttúruna og á meðan veiran dreifir sér einhvers staðar í heiminum er hætta á að hún stökkbreytist og stofni þeirri vinnu sem við höfum lagt í bólusetningar hingað til í hættu. Því þarf að tryggja að öll ríki heimsins hafi jafnan aðgang að bóluefnum,“ skrifa samtökin með söfnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert