Síðustu hersveitir Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins (NATO) hafa yfirgefið Bagram-herstöðina í Afganistan, sem hefur verið miðstöð hernaðaraðgerða gegn uppreisnarhópum í landinu sl. 20 ár.
Líklegt þykir að þetta sé skref í þá átt að allar hersveitir muni brátt yfirgefa Afganistan, en Bagram er langstærsta herstöð Bandaríkjanna í landinu. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt allt bandarískt herlið verða farið úr landi brott fyrir 11. september, en þá verða liðin 20 ár frá hryðjuverkaárásunum sem voru gerðar á Bandaríkin þar sem tæplega 3.000 biðu bana.
Fram kemur í umfjöllun BBC, að brotthvarf hersins frá Bagram, sem er norður af höfuðborginni Kabúl, komi á sama tíma og liðsmenn talibana eru að sækja fram víða í Afganistan. Óttast er að brotthvarf erlendra herafla verði vatn á myllu talíbana og geti leit til borgarstyrjaldar.
Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda stóðu á bak við árásirnar á Bandaríkin 2001. Samtökin sem störfuðu á alþjóðavísu voru með höfuðstöðvar í Afganistan þar sem þau nutu stuðnings talibana, sem höfðu þá stjórnað landinu frá því á tíunda áratug síðustu aldar. Bandaríkin réðust, ásamt bandalagsþjóðum, inn í landið síðla árs 2001.
Bandarísk stjórnvöld vilja nú binda enda á stríðið, sem er það lengsta í sögu landsins, hefur kostað fjölmörg mannslíf og verið gríðarlega kostnaðarsamt. Nú vilja Bandaríkjamenn að afgönsk stjórnvöld taki við keflinu og sinni eigin vörnum og öryggi.
Þar til nýlega var talið að um það bil 2.500 til 3.500 hermenn væru enn í landinu. Þegar þeir hverfa á brott verða innan við 1.000 bandarískir hermenn eftir. Í maí sl. voru um 7.000 hermenn frá öðrum bandalagsríkjum, en talið er að flestir þeirra hafi nú yfirgefið Afganistan. Þýsk og ítölsk stjórnvöld lýstu því m.a. yfir í vikunni að aðgerðum þeirra í landinu væri nú lokið.