Sjö ára dóttir slökkviliðsmanns fannst í rústunum

AFP

Björgunarsveitir fundu í nótt tvö lík til viðbótar í rústunum af Surfside-íbúðahúsinu í Miami. Tala látinna er nú komin í tuttugu.

Viðbragðsaðilar eru enn að leita í rústunum en yfirvöld hafa áhyggjur af óstöðugum grunni, braki sem gæti fallið á björgunarfólk og einnig af yfirvofandi fellibyl sem spáð er á næstu dögum. Þetta kemur fram í umfjöllun Miami Herald

Á meðal þeirra tveggja sem fundust í gærkvöldi var sjö ára dóttir slökkviliðsmanns í borginni.

Frá þessu greindi borgarstjórinn Daniella Levine Cava á blaðamannafundi fyrr í dag.

Þrumuveður og hellirigning veldur vandræðum

„Þrátt fyrir að hver einasti dagur frá hörmungunum hafi verið erfiður fyrir fjölskyldur sem hafa misst ástvini sína og fyrir björgunarfólk sem er búið að vinna tólf tíma vaktir síðan byggingin hrundi, var dagurinn í gær sérstaklega erfiður,“ sagði hún.

„Þetta var ótrúlega erfitt og sérstaklega fyrir björgunarfólkið okkar.“

Þrumuveður og hellirigning hefur valdið því að rústirnar eru óstöðugar og varasamar fyrir björgunarfólk, sem leitar enn að eftirlifendum.

Sprungur og brak á hreyfingu gerir björgunarfólki erfitt fyrir og einnig sú staðreynd að turninn sem enn stendur er orðinn óstöðugur. Í gærkvöldi var ákveðið að gera fimmtán klukkutíma hlé á leit á meðan verkfræðingar meta ástandið og hvort óhætt sé að halda áfram leit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert