Joe Biden Bandaríkjaforseti telur enn möguleika á að finna eftirlifendur í rústum blokkar sem hrundi til grunna í síðustu viku nærri Miami í Flórída.
Biden lét ummælin falla þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir fund með fjölskyldum látinna og þeirra sem enn er saknað. Biden sagði við blaðamenn að fjölskyldurnar gengju nú í gegnum virkilega erfiða tíma og að opinber stuðningur við björgunar- og leitarsveitir á svæðinu myndi halda áfram næsta mánuðinn.
Þá sagði Biden það skipta höfuðmáli að komast að því hvað olli hruni byggingarinnar.
Átján hafa fundist látnir en enn er 145 manns saknað.
Leit hélt áfram í gærkvöldi eftir 15 klukkustunda hlé vegna óvissu um stöðugleika þess sem eftir er af byggingunni. Engum hefur verið bjargað á lífi síðan á fyrstu klukkustundunum eftir hrun byggingarinnar.