Þar sem hitinn getur náð allt að 52 stigum

Pakistanar kæla sig niður í sjónum.
Pakistanar kæla sig niður í sjónum. AFP

Þegar sumarhitinn skellur af þunga á Jacobabad í Pakistan hörfa allir íbúar borgarinnar inn til sín eins og um árás sé að ræða.

Göturnar tæmast á meðan íbúar búa sig undir hitann sem getur náð allt að 52 stigum. 

Fáir íbúar búa svo vel að vera með loftkælingu og rafmagnsleysi í borginni veldur því einnig að þær virka ekki. Sjúkrahúsin fyllast af fólki með sólsting þar sem fjölmargir neyðast til að vinna utandyra til að sjá sér fyrir mat. Þetta kemur fram í frétt Telegraph.

„Þegar það verður svona heitt, þá getur maður ekki einu sinni staðið,“ segir Zamir Alam, íbúi í borginni.

„Það er mjög erfiður tími þegar hitinn fer yfir 50 stig. Fólk heldur sig bara inni og göturnar leggjast í eyði,“ segir Abdul Baqi búðareigandi.

Hættuleg þróun

Þessi 200 þúsund manna borg í Sindh-héraði í Pakistan hefur lengi verið þekkt fyrir öfgakenndan hita, en nýleg rannsókn bendir til hættulegrar þróunar.

Mikill hiti og raki hefur gert svæðið að öðrum af tveimur stöðum á jörðinni, þar sem hitinn getur farið það hátt að mannslíkaminn þolir hann ekki.

Héraðið liggur meðfram Indus-dalnum og er svæðið talið vera gríðarlega viðkvæmt fyrir hnattrænni hlýnun. Óttast vísindamenn að hitastig í Jacobabad aukist enn frekar, og að það sama gildi um aðrar nærliggjandi borgir. 

Dalurinn viðkvæmur fyrir hnattrænni hlýnun

Indus-dalurinn er að öllum líkindum sá staður í heiminum sem er viðkvæmastur fyrir hnattrænni hlýnun á heimsvísu,“ segir Tom Matthews, fyrirlesari í loftslagsvísindum við Loughborough-háskólann.

„Ef horft er til staða þar sem þarf að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, þá er Jacobabad í raun miðpunkturinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert