Óbólusettir „verksmiðjur fyrir ný afbrigði“

Ólíklegra er að bólusettir einstaklingar smitist og smiti aðra af …
Ólíklegra er að bólusettir einstaklingar smitist og smiti aðra af Covid-19 en óbólusettir. AFP

Óbólusettir gera meira en að stefna eigin heilsu í hættu; þeir stefna einnig heilsu annarra í hættu ef þeir smitast af kórónuveirunni, að sögn sérfræðinga í smitsjúkdómum. Ástæðan er sú að eina leiðin fyrir kórónuveiruna til þess að stökkbreytast er sú að finna sér hýsil, sem líklegast er að sé óbólusettur einstaklingur. 

„Óbólusettir einstaklingar eru mögulegar verksmiðjur fyrir ný afbrigði. Því fleiri sem óbólusettir eru, því fleiri möguleika hefur veiran á að fjölga sér,“ segir William Schaffner, bandarískur prófessor í smitsjúkdómum, í samtali við CNN.

„Þegar veiran fjölgar sér stökkbreytist hún og gæti skapað nýtt afbrigði veirunnar sem er mun skaðlegra en fyrri afbrigði.“

Fá tækifæri á fleiri stökkbreytingum

Allar veirur stökkbreytast og þó að kórónuveiran sé ekki sérstaklega gjörn á að stökkbreytast þá bæði breytist hún og þróast. Flestar breytingarnar á henni hafa í raun enga þýðingu en stundum þróar veiran með sér stökkbreytingu sem gefur henni möguleika á að smitast auðveldar á milli fólks.

Ef stökkbreyttu veirunni gengur nægilega vel að smitast á milli manna verður hún að afbrigði. Til að stökkbreyttu veirunni gangi vel þarf hún að fjölga sér. Til þess þarf hún óbólusetta manneskju. 

„Í hvert einasta skipti sem veirur breytast gefur það þeim tækifæri til þess að bæta við sig fleiri stökkbreytingum. Nú eru í umferð afbrigði veirunnar sem eru meira smitandi,“ segir Andrew Pekosz, örveru- og ónæmisfræðingur hjá lýðheilsudeild Johns Hopkins-háskólans. 

Afbrigði kórónuveirunnar hafa skotið upp kollinum víða um heim að undanförnu og valdið usla, t.a.m. delta-afbrigði veirunnar, sem hefur leikið Ástralíu grátt. Það kom fyrst fram á Indlandi og er meira smitandi en upprunalegt afbrigði kórónuveirunnar. Breska afbrigðið er það sömuleiðis en það hefur verið ráðandi í þeim smitum sem hafa greinst hérlendis undanfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka