Erlendur herafli yfirgefi Afganistan innan tímamarka

Vígasveitir hlynntar afgönskum stjórnvöldum í átökum við sveitir talíbana.
Vígasveitir hlynntar afgönskum stjórnvöldum í átökum við sveitir talíbana. AFP

Allar erlendar hersveitir sem verða í Afganistan eftir að Atlantshafsbandalagið sendir sveitir sínar úr landinu í september hætta á hernám að sögn talibana. 

Síðustu hersveitir Bandaríkjanna og NATO yfirgáfu í byrjun júlí Bagram-herstöðina í landinu, sem hafði verið miðstöð hernaðaraðgerða gegn uppreisnarhópum í landinu síðastliðin 20 ár. BBC greinir frá því að líklegt sé að um eitt þúsund hermenn, sem flestir eru bandarískir, verði áfram í landinu til þess að standa vörð um friðsamleg verkefni og alþjóðaflugvöllinn í Kabúl. 

Bandaríkin og bandamenn þeirra innan NATO komust að samkomulagi við vígahópinn um að hersveitir yfirgefi landið gegn því að talibanar leyfi ekki al-Qaeda og öðrum vígasveitum að starfa innan svæðis talibana í Afganistan. Allar hersveitir Bandaríkjanna eiga að hafa yfirgefið landið fyrir 11. september, þegar 20 ár verða liðin frá hryðjuverkaárásunum á Tvíburaturnana í New York. Liðsmenn talibana hafa að undanförnu sótt fram víða um Afganistan og óttast er að brotthvarf erlendra hersveita muni gera talibönum kleift að ná völdum af afganska hernum í höfuðborginni Kabúl. 

Talsmaður talibana, Suhail Shaheen, segir við BBC að yfirtaka hersins í Kabúl sé ekki á stefnuskrá talibana. Hann segir aftur á móti að allur erlendur herafli ætti að hafa yfirgefið borgina á tilskildum tíma. „Ef þeir skilja eftir sveitir sínar í andstöðu við Doha-samninginn þá mun það vera ákvörðun okkar leiðtoga hvernig við bregðumst við,“ segir Shaheen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert