Bandaríkjaher yfirgaf herstöðina í Bagram, miðstöð hernaðaraðgerða gegn uppreisnarhópum í Afganistan síðustu 20 ár, um miðja nótt og án þess að gera afganska hernum viðvart að sögn nýs herforingja herstöðvarinnar.
Asadullah Kohistani herforingi segir við BBC að Bandaríkjaher hafi yfirgefið Bagram klukkan 3 um nótt að staðartíma síðasta föstudag, og að afganski herinn hafi ekki komist að því fyrr en klukkustundum síðar. Í Bagram er einnig fangelsi og talið er að um fimm þúsund fangar úr röðum talíbana hafi verið skildir eftir á herstöðinni.
Allar hersveitir Bandaríkjanna eiga að hafa yfirgefið landið fyrir 11. september, þegar 20 ár verða liðin frá hryðjuverkaárásunum á Tvíburaturnana í New York. Liðsmenn talíbana hafa að undanförnu sótt fram víða um Afganistan og óttast er að brotthvarf erlendra hersveita muni gera talíbönum kleift að ná völdum af afganska hernum í höfuðborginni Kabúl.
Kohistani segir að afganski herinn búist við því að talíbanar eigi eftir að ráðast á Bagram. Hann segir að herinn búi yfir upplýsingum um þreifingar vígasveitarinnar í nálægu dreifbýli.