Bóluefni Pfizer sagt hafa aðeins 64% virkni

Ísraelar hafa notað bóluefni Pfizer í miklum mæli og segir …
Ísraelar hafa notað bóluefni Pfizer í miklum mæli og segir heilbrigðisráðuneyti þeirra það aðeins hafa 64% virkni gegn smitum Delta-afbrigðisins. AFP

Bóluefni gegn kórónuveirunni frá Pfizer hefur aðeins 64% virkni gegn smiti í Ísrael nú þegar Delta-afbrigði veirunnar hefur komist í dreifingu í landinu. Heilbrigðisráðuneyti Ísraels greindi frá þessu mánudag. Vakti ráðuneytið athygli á að bóluefnið veiti samt sem áður 93% vörn gegn alvarlegum einkennum.

Þetta kemur fram í umfjöllun ísraelska blaðsins Haaretz.

Í mars var sagt frá því að umfangsmikil rannsókn framkvæmd í Ísrael hefði sýnt 99% virkni Pfizer-BioNTech-bóluefnisins gegn einkennum og 91,2% virkni gegn smiti. En eftir að Delta-afbrigðið fór að breiðast út í landinu hafi komið í ljós að ekki væri hægt að taka þessari miklu vörn sem sjálfgefinni.

Bóluefnið hefur verið notað í miklum mæli í Ísrael og hefur yfir 60% íbúa þegar fengið fyrri skammt en 56% eru fullbólusett með tveimur skömmtum. Heilbrigðisráðuneyti Ísraels hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort ástæða sé til að veita þriðja skammt af bóluefninu en hefur biðlað til allra sem hafa átt samneyti við einstaklinga með staðfest kórónuveirusmit að fara í sýnatöku.

Sérfræðingar hafa lýst efasemdum varðandi greiningu á smithlutfalli í Ísrael undanfarnar vikur og faraldsfræðiteymi ráðuneytisins hefur einnig dregið aðferðirnar í efa. Þó er nokkur eining um að virkni bóluefnisins frá Pfizer gegn smitum Delta-afbrigðisins sé minni en áður var talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert