Eldflaugum skotið á sendiráð Bandaríkjanna

Reyk leggur frá flugherstöð í Anbar þar sem bandaríkjaher hefur …
Reyk leggur frá flugherstöð í Anbar þar sem bandaríkjaher hefur aðsetur eftir eldflaugaárás á miðvikudag. AFP

Þremur eldflaugum var í nótt skotið á sendiráð Bandaríkjanna í Írak að því er íraski herinn segir. Flaugarnar hæfðu ekki sendiráðið sjálft heldur þrjá nærliggjandi staði á vel vörðu „Græna-svæðinu“ í höfuðborginni Bagdad. 

Atvikið kemur í kjölfar eldflauga- og drónaárása á miðstöðvar Bandaríkjahers í Írak og Sýrlandi. Vopnuðum hópum sem styðja stjórnvöld í Íran hefur verið kennt um árásarhrinuna. 

Um 2.500 bandarískir hermenn eru nú í Írak, en 50 árásir hafa beinst að herstöðvum þeirra það sem af er ári og hefur þeim farið fjölgandi á síðustu dögum. Á miðvikudag var 14 eldflaugum skotið að flugherstöð þar sem bandarískir hermenn hafa aðsetur í Anbar í vesturhluta landsins. Tveir slösuðust í árásinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert