Fjórir „málaliðar“ létust í átökum við lögreglu

Fjórir menn, grunaðir um að hafa ráðið Jovenel Moise forseta Haíti af dögum aðfaranótt miðvikudags, létust í skotbardaga við lögreglu í nótt. Tveir hafa verið handteknir. Lögregla á enn í átökum við nokkra grunaða í höfuðborginni Port-au-Prince. 

„Þeir verða drepnir eða handteknir,“ segir lögreglustjórinn Leon Charles. 

Moise, sem var 53 ára, var skotinn til bana og eiginkona hans flutt særð á sjúkrahús klukkan 1 að staðartíma á miðvikudag, klukkan 5 á miðvikudagsmorgun að íslenskum tíma. Ónafngreindir árásarmenn réðust inn á heimili Moise í Port-au-Price, en eiginkona Moise, Martine Moise, hefur verið flutt til Flórída þar sem hún fær aðhlynningu. Ástand hennar er alvarlegt en stöðugt. 

„Fjórir málaliðar létust og tveir voru handteknir undir okkar stjórn,“ sagði Charles í sjónvarpsviðtali seint á miðvikudag. „Þrír lögreglumenn sem höfðu verið teknir í gíslingu hafa verið endurheimtir.“

Jovenel Moise forseti Haíti.
Jovenel Moise forseti Haíti. AFP

„Við króuðum hina grunuðu af á leið þeirra frá vettvangi glæpsins. Síðan þá höfum við átt í átökum við þá,“ segir Charles. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti vottaði haítísku þjóðinni samúð sína í gærkvöldi og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands kallaði eftir værð í landinu. 

Moise var kjörinn forseti Haíti árið 2017, en undanfarið hefur verið kallað eftir afsögn hans í umfangsmiklum mótmælum.Hann hefur ítrekað verið sakaður um spillingu. Valdarán, pólitískur óstöðugleiki, glæpahópar og náttúruhamfarir síðustu áratugi hafa gert það að verkum að Haíti er í dag fátækasta land Ameríku. 

Lögregla skoðar sönnunargögn á vettvangi morðsins.
Lögregla skoðar sönnunargögn á vettvangi morðsins. AFP

Charles segir að árásarmennirnir hafi verið erlendir og þeir talað spænsku og ensku. BBC greinir frá því að þeir hafi verið svartklæddir og þungvopnaðir og þóst vera bandarískir fíkniefnalögreglumenn. Bocchit Edmond, sendiherra Haíti í Bandaríkjunum, segir að ekki hafi verið um bandaríska lögreglumenn að ræða, en að líklegt væri að mennirnir séu málaliðar sem hafi dulbúið sig sem leynilögreglumenn. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert