Haítíska lögreglan í skotbardaga við morðingjana

Yfirmaður lögreglunnar á Haítí segir þá enn leita þeirra sem …
Yfirmaður lögreglunnar á Haítí segir þá enn leita þeirra sem standa á bak við morðið á forsetanum AFP

Lögregla Haítí drap fjóra menn grunaða um morðið á Jovenel Moise, forseta Haítí, í gær og handtók sex til viðbótar, þar á meðal tvo bandaríska-haítíska menn, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum þar í landi.

Moise var skotinn til bana snemma dags á miðvikudaginn á heimili sínu. Haítísk yfirvöld segja að hópur erlendra, vel þjálfaðra drápsmanna hafi verið á bak við morðið. Atvikið hefur orðið til pólitískrar upplausnar og ofbeldis á Haítí en þar er einnig mikil fátækt.

Leita enn höfuðpauranna

Lögreglustjórinn, Leon Charles, sagði í ávarpi í sjónvarpsútsendingu í gær að yfirvöld hefðu rakið för árásarmannanna í gær að húsi nálægt vettvangi glæpsins í Petionville, sem er úthverfi höfuðborgarinnar Port-au-Prince.

Þar tók við langur skotbardagi sem entist inn í nóttina. Að lokum voru sex handteknir og fjórir úrskurðaðir látnir. Mikill viðbúnaður lögreglu var á svæðinu.

„Við höfum fundið þá sem framkvæmdu ódæðið, nú leitum við þeirra sem standa á bak við það,“ segir Charles í samtali við Reuters.

Yfirvöld hafa ekki greint frá ástæðu morðsins. Fjölmenn mótmæli hafa verið gegn Moise síðan hann varð forseti árið 2017. Fyrst var það vegna ásakana um spillingu og stjórn efnahagsmála en síðar vegna þess að hann safnaði til sín sífellt auknu valdi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert