Hópur 28 málaliða myrti Jovenel Moise, forseta Haítí, að sögn lögreglunnar. Á meðal málaliðanna voru kólumbískir hermenn sem voru komnir á eftirlaun.
Eftir skotbardaga í höfuðborginni Port-au-Prince í gær voru 17 handteknir og þrír skotnir til bana. Enn stendur leit yfir að átta einstaklingum. Óvíst er hver skipulagði árásina og af hvaða tilefni.
Mennirnir brutust inn á heimili Moise að morgni miðvikudags og skutu hann alls tólf sinnum. Eiginkona hans varð einnig fyrir skotum og liggur hún nú á sjúkrahúsi í Flórída í Bandaríkjunum.
Hatrammar deilur hafa staðið yfir undanfarið um hvenær forsetatíð Moises ætti að enda. Moise stýrði Haítí án þess að hirða mikið um stjórnskipan landsins og sagði forsetatíð sína taka enda eftir rétt ár. Stjórnarandstæðingar segja hins vegar að Moise hafi með því farið á svig við stjórnarskrárákvæði og að forsetatíð hans ætti í raun og veru að vera lokið.