Lögreglumaðurinn Wayne Couzens játaði fyrir dómi í dag að hafa myrt Söruh Everard.
Couznes hafði áður játað morðið við fyrirtöku á dómsmáli þar sem hann var ákærður fyrir að hafa rænt og nauðgað Everard, sem hann játaði einnig.
Samkvæmt krufningarskýrslu lést Sarah Everard vegna köfnunar við þrengingu að hálsi. Everard var markaðssérfræðingur sem hvarf á göngu sinni heimleiðis frá heimili vinar hinn 3. mars í suðurhluta Lundúna. Stórfelld leit hófst að Everard og fundust líkamsleifar hennar í skóglendi um viku síðar.
Lögfræðingur Couznes sagði fyrir dómi í morgun að játning lögreglumannsins sýni að hann iðrist gjörða sinna og að hann muni bera byrðina það sem eftir er. Móðir Söruh, sem var í dómsalnum, rétti upp hönd við það tilefni og gaf til kynna, að mati fréttamanns BBC í salnum, að orð hans og játning dygðu lítt.
Cressida Dick, lögreglustjóri Lundúnarlögreglunnar, var viðstödd við fyrirtöku málsins í morgun, og sagði hún vera ævareið og niðurbrotin yfir glæpum Couznes. „Allir innan lögreglunnar hafa verið sviknir.“
„Sarah var stórkostleg, hæfileikarík ung kona sem átti allt lífið fram undan sem hefur verið hrifsað frá henni,“ sagði Dick.
Í kjölfar morðs Everard hófst bylgja mótmæla í Bretlandi sem beindust að kynbundu ofbeldi, öryggi kvenna og valdbeitingu lögreglu.
Dómur verður kveðinn upp yfir lögreglumanninum 29. september.