Talíbanar segjast ráða yfir 85% landsins

Talíbanar segjast nú hafa náð yfirráðum yfir 85% alls lands í Afganistan eftir að hafa hrakið stjórnarhermenn í burtu við landamærahlið Afganistan og Íran annars vegar og Túrkmenistan hins vegar.

Valdatóm myndaðist eftir að bandaríkjaher hélt af landi brott og stjórnarliðar í Afganistan þurftu einir að halda Talíbönunum í skefjum.

Fulltrúar Talíbana sem heimsóttu rússnesk stjórnvöld í Moskvu segjast nú fara með yfirráð í 250 héröðum af alls 398 í landinu öllu, sem veitir þeim yfirráð yfir 85% alls landsvæðis í Afganistan, eins og fyrr segir.

Talsmaður afganska innanríkisráðuneytisins segir að í undirbúningi séu aðgerðir til að sporna við framgangi Talíbananna.

Kaninn farinn og því fagna Talíbanar

Þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir stuttu að allir bandarískir hermenn væru á förum frá Afganistan sagðist hann hafa litla trú á því að afgönsk stjórnvöld gætu haldið aftur af uppgangi Talíbana. Hann segir þó ekki óumflýjanlegt að Talíbanar nái allri stjórn á landinu, en hann segir þó að afar ólíklegt sé að ein heildstæð ríkisstjórn muni ráða lögum og lofum í landinu öllu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

„Ekki verður við óbreytt ástand unað,” sagði Biden um veru Bandaríkjamanna í Afganistan. „Ég mun ekki senda aðra kynslóð bandarískra hermanna í stríðið í Afganistan.”

Hafandi misst stór landflæmi í hendur Talíbana, stjórna afgönsk stjórnvöld nú aðeins lauslegri þyrpingu stærri héraðshöfuðborga, sem reiða sig á loftbrýr til þess að verða sér úti um nauðsynjavörur.

Afganski flugherinn var nú þegar undir miklu álagi áður en Talíbanar létu til skarar skríða fyrir skemmstu og því mun herinn eiga enn erfiðar uppdráttar við að sinna hlutverki sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert