Tilfellum af Covid-19 hefur fjölgað talsvert að undanförnu í Færeyjum og eru nú 48 í einangrun eftir að hafa smitast af kórónuveirunni sem veldur sjúkdómnum.
Fjórtán ný tilfelli greindust í eyjunum í gær. Fram kemur á vefnum portal.fo að í fjórum tilfellum hafi verið um að ræða fólk, sem var að koma til landsins, þar af komu þrír frá Mallorca. Hin tilfellin eru rakin til hópsmits, sem kom upp.
Alls hafa 817 greinst með kórónuveiruna í Færeyjum. Einn hefur látist af völdum sjúkdómsins.
Alls hafa tæplega 32 þúsund Færeyingar verið bólusettir gegn kórónuveirunni eða 59,3% af þjóðinni. Þar af teljast 21 þúsund eða rúmlega 40% vera fullbólusettir.