Abiy Ahmed áfram forsætisráðherra Eþíópíu

Abiy Ahmed forsætisráðherra Eþíópíu.
Abiy Ahmed forsætisráðherra Eþíópíu. AFP

Stjórnarflokkur Eþíópíu tyggði sér yfirgnæfandi meirihluta í kosningum landsins. Abiy Ahmed hefur því tryggt sé sæti sem forsætisráðherra Eþíópíu áfram næstu fimm árin. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Ahmed er kjörinn forsætisráðherra en hann tók við völdum árið 2018 eftir nokkurra ára mótmæli gegn sitjandi ríkisstjórn. Ári síðar hlaut hann friðarverðlaun Nóbels fyrir umbætur í stjórnmálum. 

Síðast var kosið í landinu árið 2015 en kosningu hefur verið frestað tvisvar eftir það. Í fyrra sinnið vegna útbreiðslu COVID-19 og hið síðara svo tryggja mætti að hægt yrði að kjósa um allt land.

Hagsældarflokkur (e. Prosperity Party) Ahmeds hlaut meira en 400 þingsæti af 436 sem voru til boða á eþíópíska þinginu. Flokkurinn lofar lýðræðisvakningu í þessu næst fjölmennasta ríki Afríku en íbúar landsins eru um 112 milljónir, þar af eru 38 milljónir á kjörskrá. 

Kosið í Eþíópíu.
Kosið í Eþíópíu. AFP

Kosningu er þó ekki lokið þar sem um fimmtungur landsmanna þarf að bíða til 6. september eftir að fá að greiða atkvæði sitt. Það er í héruðum þar sem öryggi þykir ábótavant, átök ríkja milli þjóðarbrota og eins þar sem illa gekk að skipuleggja kosningar í tíma. Dagsetning á kosningu í Tigray-héraði er þó enn ekki ljós vegna átakanna sem geisa þar enn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert