Vopnaðir nautgripaþjófar drápu að minnsta kosti 35 manns í fimm þorpum í norðvesturhluta Nígeríu að kvöldi fimmtudags. Þetta tilkynnti lögregla þar í dag.
Íbúar á svæðinu segja að allt að 43 hafi verið drepnir. „Við fundum alls 43 lík í þorpunum og sjö manns sem voru slösuð,“ segir Danladi Sabo, íbúi á svæðinu, í samtali við AFP.
Árásarmennirnir voru á mótorhjólum og réðust á fimm þorp á sama tíma, þar sem þeir skutu íbúa og kveiktu í húsum.
Þeir komust undan áður en öryggissveitir komu á staðinn, enda er erfitt að komast að svæðinu vegna lélegra vega.
Norðvestur- og miðhluti Nígeríu hefur verið plagaður af árásum nautgripaþjófa og mannræningja sem ráðast á þorp, drepa og ræna íbúum, stela búfénaði og brenna heimili.
Árásarmennirnir eru aðallega á eftir fjármunum en sumir hafa birst í myndböndum þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við íslamska vígamenn.