Bandaríkin senda ekki herlið til Haítí

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Bandaríkin munu ekki senda herlið til …
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Bandaríkin munu ekki senda herlið til Haítí. Jacquelyn Martin

Bandaríkin ætla ekki að verða við beiðni yfirvalda í Haítí um að senda þangað hermenn til að vernda innviði landsins. Upplausn er í landinu eftir að forsetinn, Jovenel Moise, var drepinn á heimili sínu af erlendum málaliðum.

Bandaríkin hafa boðið fram aðstoð við rannsókn málsins.

Hópur vopnaðra manna kom á heimili Moise í höfuðborginni Port-au-Prince snemma á miðvikudagsmorgun og réð honum bana. Pólitísk upplausn er í landinu í kjölfar morðsins og óttast er að hungur og ofbeldi muni aukast og Covid-smitum fjölga.

Óttast að innviðir séu skotmörk

Haítí lagði fram beiðni um aðstoð Bandaríkjanna til að tryggja öryggi í landinu á fundi Claude Joseph, sem er tímabundinn forsætisráðherra Haítí, og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anthony Blinken, á miðvikudag.

Haítí bað einnig um liðsauka frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Í bréfi haítískra yfirvalda til Sameinuðu þjóðanna kom fram að þau óttist að innviðir landsins, svo sem höfnin, flugvöllurinn og orkuinnviðir, gætu verið skotmörk.

Þá sé þörf á herliði til að tryggja að forseta- og þingkosningar geti farið fram 26. september eins og áætlað er. Sameinuðu þjóðirnar skoða nú bréfið en það er Öryggisráðið sem á endanum tekur afstöðu til innihaldsins.  

Frétt á vef Reuters. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert