Búa sig undir ný hitamet

Íbúar Suður-Kaliforníu kæla sig niður í hitanum.
Íbúar Suður-Kaliforníu kæla sig niður í hitanum. AFP

Gríðarlegur hiti er nú víða um Bandaríkin og veðurspár gera ráð fyrir því að hitamet verði slegin í Kaliforníu og Nevada. 

Banvæn hitabylgja fór yfir Norður-Ameríku í lok júní, sem var heitasti júnímánuður frá því að mælingar hófust í Kanada og fjölmörgum ríkjum Bandaríkjanna. 

Veðurstofa Bandaríkjanna hefur ráðlagt fólki að drekka mikið vatn og halda sig í byggingum með loftkælingu. 

Á föstudag fór hitinn í Dauðadalnum í Kaliforníu rétt upp fyrir 54 gráður, en sama hitastig mældist á svæðinu í ágúst 2020. Þá var talið að um væri að ræða hæsta hitastig sem mælst hefur í heiminum, þó að árið 1913 hafi mælst 56,7 gráðu hiti í Dauðadalnum og árið 1931 55 gráðu hiti í Túnis. Sérfræðingar hafa dregið báðar mælingarnar í efa og er því ekki útilokað að hæsti hiti sem mælst hefur hafi verið í gær og fyrir tæpu ári síðan. 

Þá hefur hitinn í Las Vegas einnig farið yfir 47,2 gráður, sem var hitamet í borginni. 

Íbúar Kanada hafa einnig búið sig undir mikinn hita, þó að ekki sé gert ráð fyrir sambærilegum hitatölum og í lok síðasta mánaðar þegar kanadískt hitamet var slegið í bænum Lytton í British Columbia þar sem mældist 49,6 gráðu hiti. 

Hitabylgjan hefur leitt til aukningar í óvæntum dauðsföllum. 

Þá hafa eldingar kveikt tugi gróðurelda og fólk þurft að flýja heimili sín samkvæmt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert