„Ég er á lífi, þökk sé Guði“

Forsetahjón Haítí, Jovenel og Martine Moise.
Forsetahjón Haítí, Jovenel og Martine Moise. AFP

Ekkja forseta Haítí, sem var skotinn til bana í vikunni, hefur gefið frá sér tilkynningu. Martine Moise særðist lífhættulega í árásinni og var því flutt á sjúkrahús í Flórída. 

Martine hvatti Haítíbúa til að villast ekki af leið. „Ég er á lífi, þökk sé Guði, en ég hef misst eiginmann minn, Jovenel,“ segir Martine í hljóðskilaboðum sem hún deildi á Twitter í dag.

Hóp­ur 28 málaliða réðst inn á heimili hjónanna á miðvikudag og skaut forsetann tólf sinnum. „Á örskotsstundu réðust málaliðarnir inn á heimili mitt og fylltu manninn minn af byssukúlum, án þess að gefa honum tækifæri til þess að segja eitt orð,“ segir Martine í skilaboðunum og bætir við að Haítí megi ekki láta dauða hans vera til einskis.

Allsherjarupplausn ríkir í stjórnmálum landsins eftir morðið á forsetanum en tveir menn gera tilkall til forsætisráðherratignar og er þingið nú óstarfhæft.

Martine lauk skilaboðunum á að segjast ekki ætla að yfirgefa haítísku þjóðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert