Evrópusambandið útvisti mengun til Bandaríkjanna

Samkvæmt vísindamönnum losar brennsla lífmassa meira kolefni í andrúmsloftið en …
Samkvæmt vísindamönnum losar brennsla lífmassa meira kolefni í andrúmsloftið en brennsla kola. Timothy A. Clary

Fyrr á árinu var Evrópusambandinu hampað víða um heim vegna þess að í fyrsta sinn í sögunni var notkun þess á endurnýjanlegri orku meiri en notkun jarðefnaeldsneytis. Vísindamenn og sérfræðingar segja þó fagnað of snemma.

Ástæðan er notkun Evrópu á lífmassa (e. biomass) sem orkugjafa, en lífmassi er unninn og samþjappaður viður sem er brenndur til að skapa orku.

Samkvæmt nærri 800 vísindamönnum sem skrifuðu bréf til Evrópuþingsins 2018 losar brennsla lífmassa meira af kolefni í andrúmsloftið en brennsla kola og er óhagkvæmari. Þar að auki hafi framleiðsla lífmassa skaðleg áhrif á jaðarsett samfélög. Þetta kemur fram í frétt CNN.

Lífmassaverksmiðjur hafa flestar verið reistar í samfélögum þar sem svart …
Lífmassaverksmiðjur hafa flestar verið reistar í samfélögum þar sem svart fólk er í meirihluta. Scott Olson

Ber grímu til að verja sig ryki frá verksmiðjunni

Andrea Macklin segist alltaf hafa kveikt á sjónvarpinu sínu því það sé eina leiðin til að yfirgnæfa hávaðann í tréverksmiðjunni sem liggur að bakgarðinum hans í Norður-Karólínu.

Stórir trukkar bera timbur dag og nótt einungis um 30 metra frá húsinu hans og húsið skelfur líkt og það sé jarðskjálfti. Hann segist ekki hafa sofið almennilega síðan verksmiðjan var reist.

Hann er einn fjölmargra sem hafa orðið fyrir neikvæðum og mögulega heilsuspillandi áhrifum af lífmassaverksmiðjum sem reistar hafa verið í Suðurríkjum Bandaríkjanna, flestar á fátækum svæðum þar sem íbúar eru að meirihluta til svartir.

Macklin hefur borið grímu frá því löngu fyrir kórónuveirufaraldurinn, til að verja sig frá ryki sem berst frá verksmiðjunni.

Envia, stærsti lífmassaframleiðandi heims, opnaði aðra verksmiðju sína í Norður-Karólínu fyrir átta árum, vestur af heimili Macklin í Garysburg. Verksmiðjan fellir tré og býr til lífmassa úr viðnum.  

Evia er meðal þeirra fyrirtækja sem hagnast á sjálfbærnimarkmiðum sem Evrópusambandið setti sér fyrir meira en áratug.

Menga minna á pappír en meira í reynd

Árið 2009 kom Evrópusambandið sér saman um að draga úr útblæstri gróðurhústegunda og aðildarlöndin voru hvött til að færa sig frá jarðefnaeldsneyti í endurnýjanlega orkugjafa.

Það gaf út tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa þar sem lífmassi var flokkaður sem slíkur orkugjafi á sama hátt og vindur og sólarljós. Aðildarlönd voru hvött til að hvetja til brennslu lífmassa í stað kola og eftirspurn eftir við rauk upp.

Fljótlega urðu Suðurríki Bandaríkjanna helsti útflutningsaðili lífmassa til Evrópu.

Lífmassi var þó ekki takmarkaður við aukaafurðir í tilskipuninni, svo sem frá framleiðslu pappírs, húsgagna eða timburs, og því varð til sterkur hvati til að höggva niður heil tré.

Skráðri mengun útvistað til Bandaríkjanna

Fjöldi evrópskra fyrirtækja hafa reist lífmassaverksmiðjur í Suðurríkjum Bandaríkjanna undanfarin ár og 164 ekrur af skógi eru höggnar niður af iðnaðinum á ári.

Samkvæmt leiðbeiningum frá Sameinuðu þjóðunum er kolefnislosun frá brennslu lífmassa skráð þar sem trén eru höggin, en ekki þar sem lífmassinn er brenndur.

Fram kemur í frétt CNN að Evrópulönd geti því nýtt lífmassa sem orkugjafa og kolefnislosunin sem hlýst af því er skráð í Bandaríkjunum. Þau losa þá minna – á blaði – en losunin er ekki minni í reynd.

„Ég get ekki hugsað mér neitt sem skaðar náttúruna meira en að höggva niður tré og brenna þau,“ segir William Moomaw, prófessor í alþjóðlegri umhverfisstefnumótun í Tufts háskóla í samtali við CNN.

Þá segir Tim Searchinger, rannsakandi við Princeton háskóla, að tilskipun Evrópusambandsins sem hafi átt að hvetja til minnkunar á útblæstri sé gölluð og hvetji í raun þvert á móti til aukins útblásturs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert