„Ég er 100% viss um sakleysi þeirra“

Duberney Capador er einn þeirra 28 málaliða sem hefur verið …
Duberney Capador er einn þeirra 28 málaliða sem hefur verið handtekinn. AFP

Systir eins málaliðanna sem taldir eru hafa myrt Jovenel Moise, forseta Haítí, fullyrðir að bróðir hennar sé saklaus.

Jenny Capador heitir því að hreinsa nafn bróður síns, Duberneys Capadors, en hann var skotinn til bana í kjölfar morðsins á Moise af haítísku lögreglunni. Duberney var eftirlaunaþegi sérsveitar Kólumbíu og fullyrða yfirvöld að hann sé einn þeirra 28 málaliða sem myrtu Moise á miðvikudagsmorgun. 

Forsetahjónin Jovenel og Martine Moise.
Forsetahjónin Jovenel og Martine Moise. AFP

Systir Duberneys, Jenny, segir að bróðir hennar hafi hins vegar ekki verið launmorðingi heldur hafi hann komið til Port-au-Prince, höfuðborgar Haítí, eftir að öryggisfyrirtæki réð hann til þess að vernda „mikilvæga einstaklinga“.

Jenny segist hafa verið í samskiptum við Duberney eftir að morðið átti sér stað. Sagði hann henni að teymið hans hefði komið of seint til þess að vernda þann sem þeir áttu að sjá um. Jenny telur að sá aðili hafi verið forsetinn. Í kjölfarið hafi bróðir hennar og teymi hans verið umkringt lögreglu. 

„Ég er 100% viss um sakleysi þeirra,“ sagði Jenny í samtali við CNN.

Steven Benoit, stjórnarandstæðingur í Haítí, hefur einnig dregið í efa sök málaliðanna á morði Moise forseta en hann telur að lífverðir Moise hafi myrt hann. Alls­herj­ar­upp­lausn rík­ir í stjórn­mál­um lands­ins eft­ir morðið á for­set­an­um en tveir menn gera til­kall til for­sæt­is­ráðherratign­ar og er þingið nú óstarf­hæft. Þá hafa stjórnvöld óskað eftir aðstoð bandaríska hersins til að vernda innviði landsins en Bandaríkjamenn hafa hafnað þeirri ósk. 

Frétt á vef The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert