Gróðureldar geisa og kælingarmiðstöðvar opnaðar

Frá skógareldum í Bresku-Kólumbíu í Kanada í byrjun júlí.
Frá skógareldum í Bresku-Kólumbíu í Kanada í byrjun júlí. AFP

Gróðureldar geisa nú í vesturhluta Bandaríkjanna en hitabylgja gengur þar yfir. Hitamet hafa verið slegin á nokkrum svæðum.

Slökkviliðsmenn berjast við eldinn og hefur fjölda fólks verið sagt að yfirgefa heimili sín. Tveir slökkviliðsmenn létu lífið í Arizona í gær þegar flugvél sem þeir notuðu við slökkvistörf hrapaði. Þetta kemur fram í frétt BBC

Nauðsynlegt er að kæla sig og forðast sólina í hitabylgunni …
Nauðsynlegt er að kæla sig og forðast sólina í hitabylgunni sem ríður nú yfir Norður-Ameríku. Þessi mynd er tekin í Kanada. AFP

47,2 stiga hiti

Í Las Vegas fór hitinn upp í 47,2 gráður í gær sem er á pari við hæsta hita sem mælst hefur þar. Slökkviliðsmenn segja að loftið sé svo þurrt að mikið af vatninu sem hellt er úr flugvélum  til að stemma stigu við eldunum gufi upp áður en það nær til jörðu.

Víða hafa verið opnaðar svokallaðar „kælingarmiðstöðvar“, opinberar byggingar með loftkælingu, þar sem fólk getur komið og hvílt sig á hitanum.

Stutt er síðan önnur hitabylgja reið yfir Norður-Ameríku í lok júní. Þá var tilkynnt um fjölda óvæntra dauðsfalla og grunur leikur á að mörg þeirra hafi tengst hitanum.

Aldrei hefur verið jafn hlýtt í júní á svæðinu og í ár. Sérfræðingar segja að búast megi við að loftslagshlýnun auki tíðni öfgakenndra veðuratburða, svo sem hitabylgna, en flókið sé að tengja einn tiltekinn atburð við hana.

Skógareldar hafa geisað víða í Norður-Ameríku, meðal annars í Kanada …
Skógareldar hafa geisað víða í Norður-Ameríku, meðal annars í Kanada þar sem þessi mynd er tekin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert