Hitabylgja geisar í vesturhluta Bandaríkjanna og Kanada þar sem viðvaranir vegna hækkandi hitastigs hafa verið gefnar út. Á sama tíma færast gróðureldar í vöxt.
Veðurstofa Bandaríkjanna varaði við hitabylgjunni fyrir helgi þar sem spár gerðu ráð fyrir að hitamet yrðu slegin en spáð var allt að 54 stiga hita í Dauðadalnum (e. Death Valley) í Kaliforníu. Spáin gekk þó ekki alveg eftir en hitinn fór samt sem áður upp í 49 gráður.
Örlítið dregur úr hitanum í dag en búist er við að hann hækki á ný á morgun. Gróðureldar loga í norðanverðu ríkinu þar sem vindhraði er mikill. Nokkur hús hafa orðið eldunum að bráð og eru íbúar hvattir til að halda sig fjarri.
Gróðureldar geisa einnig í Oregon-ríki þar sem eldur sem gefið hefur verið heitið „Bootleg“ hefur þrefaldast að stærð frá því á föstudag og nær nú yfir meira en 400 ferkílómetra landsvæði.
Hitabylgjan hefur mikil áhrif á Janie og Dean VanWinkle, bændur í Colorado-ríki, en þurrkar setja búskap þeirra í uppnám þriðja árið í röð. Dean segir loftslagsbreytingar óneitanlega hafa sitt að segja um ástadið. Rætt er við þau í myndskeiðinu hér að ofan.
Í vesturhluta Kanada er gerð ráð fyrir 32 stiga hita í dag sem er vel yfir meðallagi miðað við árstíma. Þá hafa yfir 50 gróðureldar kviknaði yfir helgina og er heildartala þeirra nú um 300. Helstu aðgerðir stjórnvalda miða að því þessa stundina að hefta útbreiðslu gróðurelda.
Stutt er síðan önnur hitabylgja reið yfir Norður-Ameríku í lok júní. Þá var tilkynnt um fjölda óvæntra dauðsfalla og grunur leikur á að mörg þeirra hafi tengst hitanum.
Aldrei hefur verið jafn hlýtt í júní í Norður-Ameríku og í ár. Sérfræðingar segja að búast megi við að loftslagshlýnun auki tíðni öfgakenndra veðuratburða, svo sem hitabylgja, en flókið sé að tengja einn tiltekinn atburð við hana.