Kúbversk yfirvöld hafa rofið nettengingu, slökkt á rafmagninu og þar með kippt Kúbverjum úr sambandi við umheiminn vegna mótmælanna sem geisa þar í landi gegn kommúnistastjórninni sem ríkt hefur í 62 ár.
Chary Aballe er fædd og uppalin á Kúbu. Hún býr nú á Spáni en bjó um tíma á Íslandi. Á Instagram-reikningi sínum hefur hún verið dugleg að deila fréttum af ástandinu á Kúbu þar sem fjölskylda hennar og vinir eru.
Chary bendir á að nettenging hafi fyrst orðið aðgengileg almenningi á Kúbu fyrir fjórum árum. Hún kostar 20 Bandaríkjadali á mánuði sem samsvarar mánaðarlaunum lækna á Kúbu. Það eru því aðeins þeir sem eiga fjölskyldu eða vini utan Kúbu, sem geta leyft sér þau fríðindi.
Fjölskylda Chary á Spáni borgar til að mynda nettenginguna fyrir aðra fjölskyldumeðlimi á Kúbu. Þannig hefur aðeins lítill hluti Kúbverja haft aðgang að gögnum sem ekki eru meitluð af stjórnvöldum þar í landi.
Þótt búið sé að taka fyrir nettengingu og rafmagn eftir að mótmælin brutust út, þá er enn símasamband og því hefur Chary náð sambandi við vini sína og ættingja. Þannig fær hún fregnir af mótmælunum, ástandinu á sjúkrahúsinu og í landinu yfirhöfuð.
Frænka Chary er læknir í Kúbu og vinnur mikið í tengslum við Covid. Á hverjum degi greinast sex til sjö þúsund smit og spítalinn er engan veginn í stakk búinn til að bregðast við því. Ekki er heldur verið að bólusetja fólkið. „Það er sjúkrabíll fyrir utan spítalann en það hefur ekki verið hægt að nota hann í langan tíma því hann er bensínlaus og það er ekki til peningur til að kaupa bensín,“ segir Chary.
Í gegnum tíðina hafa oft brotist út lítil mótmæli afmarkaðra hópa á Kúbu, að sögn Chary. Hún segir að fólkinu í landinu hafi alltaf verið talin trú um að þessir mótmælahópar væru skipulagðir og kostaðir af Bandaríkjamönnum sem vilji koma höggi á kommúnismann. Sömu aðferð er beitt nú og nær hún til hluta þjóðarinnar en mótmælahópurinn er þó stærri og ljóst að áróðurinn mun ekki nægja.
Díaz-Canel, forseti Kúbu, hefur hvatt stuðningsmenn stjórnvalda til að bjóða mótmælendum byrginn og standa vörð um kommúnismann. Yfirvöld hafa brugðist við af hörku og að sögn Chary hefur herinn nú þegar drepið fjölmarga mótmælendur.
„Það sem er verst er að yfirvöld eru nú að senda vopnaða hermenn, dulbúna sem óbreytta borgara, inn í mótmælin en enginn óbreyttur borgari hefur aðgang að vopnum,“ segir Chary.
Með þessu telur hún að Díaz-Canel ætli sér að sviðsetja borgarastyrjöld þar sem dyggir stuðningsmenn ríkisins muni standa uppi sem sigurvegarar gegn uppreisnarmönnum. Þegar raunin sé sú að yfirvöld séu að þurrka út eigin þegna.
Á Kúbu hvílir herskylda á öllum strákum eftir 16 ára aldur. Þeir þurfa að sinna henni í þrjú til fimm ár og mega svo velja hvort þeir gangi til liðs við herinn eða sinni öðrum störfum, þeir kunna samt alltaf að vera kvaddir til herskyldu aftur á lífsleiðinni. Margir kjósi herinn enda fylgir því þak yfir höfuðið og fæðuöryggi sem ekki er auðvelt að tryggja sér á Kúbu, að sögn Chary. Her Kúbu er því mjög fjölmennur.
„Þeir eru ekki með nýjustu vopnin en þeir hafa margt heilaþvegið fólk,“ segir Chary og bætir við að herinn sé óhræddur við að grípa til vopna gegn tómhentum mótmælendum.
Ríkið er að kalla til sín unga menn í herskyldu til að bregðast við mótmælunum. „Fjórir vinir mínir hafa verið teknir af heimilum sínum. Vopnaðir menn mæta bara heim til þeirra og segja að ef þeir hjálpi ekki ríkinu verði þeir stimplaðir föðurlandssvikarar og sendir í fangelsi, auk þess sem það mun hafa afleiðingar fyrir fjölskyldur þeirra,“ segir Chary og bætir við að fjölskyldur ungra manna séu að fela þá fyrir yfirvöldum.
Yfirvöld fylgjast einnig vel með einstaklingum sem þeir telja óæskilega að sögn Chary, en vinur hennar sem er að læra læknisfræði, er einn þeirra. „Hann er búinn að vera að tjá sig á Twitter. Lögreglan mætti heim til hans, rændi honum og fór með hann á stað sem hann veit ekki einu sinni hvar var. Þar tók lögreglufulltrúi á móti honum og barði hann svo hann nefbrotnaði. Síminn var svo tekinn af honum og honum sagt að geri hann eitthvað verði hann sendur í fangelsi og tryggt verði að móðir hans muni missa allt,“ segir Chary.
Þessi vinur hennar átti svo að lofa lögreglunni að veita upplýsingar sem hann kynni að komast yfir um fleiri óæskilega einstaklinga. „Hann ætlar frekar að deyja en hjálpa lögreglunni. Nú þegar hann er undir eftirliti verður hann samt bara heima hjá sér.“
Í Miami búa milljónir Kúbverja sem vilja nú fá leyfi frá bandarískum yfirvöldum til að sigla yfir landamærin, til Kúbu, og leggja mótmælendunum lið segir Chary. „Kúbverjar mega ekki vera með vopn en í Bandaríkjunum má það. Fólkið vill fara og hjálpa fjölskyldum sínum og vinum ef Bandaríkin gera það ekki.“
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hann hvatti stjórnvöld Kúbu til að hlusta á mótmælendurna.