Fimm ár liðin frá blóðbaðinu í Nice

Fimm ár eru liðin frá blóðbaðinu í Nice.
Fimm ár eru liðin frá blóðbaðinu í Nice. AFP

Í dag eru fimm ár liðin frá því að 19 tonna vörubíl var ekið inn í mikinn mannfjölda sem var saman kominn til að fagna þjóðhátíðardegi Frakka við strandgötu í borginni Nice í Frakklandi. Talið er að 86 hafi látið lífið og hátt í 500 slasast, margir lífshættulega.

Atvikið sem virtist við fyrstu sýn hafa verið slys reyndist skipulögð árás á mannfjöldann. Að sögn sjónarvotta sveigði bílstjórinn til og frá á götunni til að hæfa sem flesta sem í vegi hans voru. Þegar út úr bílnum var komið hóf maðurinn skotárás á fólksfjöldann þar til hann var sjálfur skotinn til bana á vettvangi af lögreglu.

Árásin átti sér stað einungis fjórum dögum eftir að lokakeppni í Evrópumóti karla í knattspyrnu lauk í Frakklandi. Hafði íslenska landsliðið meðal annars keppt í Nice og var enn töluverður fjöldi Íslendinga í borginni þegar árásin átti sér stað. Voru Íslendingar á svæðinu hvattir til að láta aðstandendur vita af sér, en seinna kom í ljós að enginn Íslendingur reyndist í hópi fórnarlambanna.

Íbúar og ferðamenn í Nice safnast saman og minnast fórnarlamba …
Íbúar og ferðamenn í Nice safnast saman og minnast fórnarlamba þremur dögum eftir árásina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka