Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segist finna til mikillar og djúpstæðrar samkenndar með fórnarlömbum þeirra miklu flóða sem geisa nú þar í landi, en að minnsta kosti 59 manns eru látnir í Þýskalandi og Belgíu af völdum flóðanna.
Merkel er stödd í Washington-borg í Bandaríkjunum í opinberri heimsókn og ávarpaði hún því þýsku þjóðina frá Hvíta húsinu.
„Ég votta öllum þeim sem misst hafa ástvin eða óttast um örlög þeirra sem enn er saknað, í þessum skelfilegu hamförum, mína dýpstu samúð,“ sagði hún í ávarpi sínu.
Ríkisstjórnin myndi ekki skilja þau sem hefðu lent illa í hamförunum „alein eftir í þjáningu sinni“ heldur muni hún gera „sitt allra besta“ í að hjálpa þeim.