Hið minnsta 126 hafa látist í flóðum á meginlandi Evrópu síðustu daga, flestir í vesturhluta Þýskalands. Fjölda er enn saknað.
Fjölmörg íbúahús hafi borist með flóðunum og enn fleiri hús hafa hrunið. Flætt hefur yfir götur og bifreiðar borist með strauminum. Sum umdæmi í vesturhluta Þýskalands hafa algjörlega lokast af og víða hefur verið rafmagnslaust.
„Allt var farið undir vatn á 15 mínútum. Íbúðin okkar, hús nágranna okkar, allt var undir vatni,“ segir Agron Berischa, 21 árs íbúi Bad Neuenahr við AFP.
Flóðin hafa komið íbúum Vestur-Þýskalands algjörlega í opna skjöldu.
„Við drifum okkur heim og vatnið náði okkur upp að mitti. Yfir nóttina hækkaði yfirborðið um 50 sentímetra,“ segir Christoph Buecken, íbúi Eschweiler.
Til að bæta gráu ofan á svart er óttast að fleiri hafi látist í aurskriðu sem féll snemma í morgun í bænum Erftstadt-Blessem.
Fjölda fólks er enn saknað á meðan fjöldi látinna í Belgíu hefur hækkað.
Gríðarleg rigning er sömuleiðis í Lúxemborg, Sviss og Hollandi og hefur fjöldi fólks þurft að yfirgefa heimili sín í Maastricht.
„Ég óttast að við eigum aðeins eftir að sjá afleiðingar þessara hörmuna á næstu dögum,“ sagði Angela Merkel, Þýskalandskanslari, við blaðamenn í Washington á fimmtudagskvöld. Merkel er stödd í Bandaríkjunum þar sem hún fundaði með Joe Biden Bandaríkjaforseta. Hið minnsta 103 eru látnir í Þýskalandi.
Gerd Landsberg, formaður Samtaka þýskra sveitarfélaga, sagði í dag tjónið í þýskum bæjum vegna flóðanna hlaupi á milljörðum evra.
Veðuröfgar sem valdið hafa flóðunum hafa fært loftlagsáhrif ofar á lista stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar í Þýskalandi. Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, sagði í dag að landið gæti „aðeins dregið úr öfgafullu veðri ef við tökum þátt af fullum krafti í baráttunni gegn loftlagsáhrifum“.