Hið minnsta 126 látist í flóðunum

Eyðilegging af völdum flóðanna er gríðarleg.
Eyðilegging af völdum flóðanna er gríðarleg. AFP

Hið minnsta 126 hafa látist í flóðum á meginlandi Evrópu síðustu daga, flestir í vesturhluta Þýskalands. Fjölda er enn saknað. 

Fjölmörg íbúahús hafi borist með flóðunum og enn fleiri hús hafa hrunið. Flætt hefur yfir götur og bifreiðar borist með strauminum. Sum umdæmi í vesturhluta Þýskalands hafa algjörlega lokast af og víða hefur verið rafmagnslaust. 

„Allt var farið undir vatn á 15 mínútum. Íbúðin okkar, hús nágranna okkar, allt var undir vatni,“ segir Agron Berischa, 21 árs íbúi Bad Neuenahr við AFP. 

Flóðin hafa komið íbúum Vestur-Þýskalands algjörlega í opna skjöldu. 

„Við drifum okkur heim og vatnið náði okkur upp að mitti. Yfir nóttina hækkaði yfirborðið um 50 sentímetra,“ segir Christoph Buecken, íbúi Eschweiler. 

AFP

Til að bæta gráu ofan á svart er óttast að fleiri hafi látist í aurskriðu sem féll snemma í morgun í bænum Erftstadt-Blessem. 

Fjölda fólks er enn saknað á meðan fjöldi látinna í Belgíu hefur hækkað. 

Gríðarleg rigning er sömuleiðis í Lúxemborg, Sviss og Hollandi og hefur fjöldi fólks þurft að yfirgefa heimili sín í Maastricht. 

„Ég óttast að við eigum aðeins eftir að sjá afleiðingar þessara hörmuna á næstu dögum,“ sagði Angela Merkel, Þýskalandskanslari, við blaðamenn í Washington á fimmtudagskvöld. Merkel er stödd í Bandaríkjunum þar sem hún fundaði með Joe Biden Bandaríkjaforseta. Hið minnsta 103 eru látnir í Þýskalandi. 

AFP

Gerd Landsberg, formaður Samtaka þýskra sveitarfélaga, sagði í dag tjónið í þýskum bæjum vegna flóðanna hlaupi á milljörðum evra. 

Veðuröfgar sem valdið hafa flóðunum hafa fært loftlagsáhrif ofar á lista stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar í Þýskalandi. Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, sagði í dag að landið gæti „aðeins dregið úr öfgafullu veðri ef við tökum þátt af fullum krafti í baráttunni gegn loftlagsáhrifum“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert