Bandarískur morðingi dæmdur til dauða

Michael Gargiulo við réttarhöld í málinu árið 2019.
Michael Gargiulo við réttarhöld í málinu árið 2019. AFP

Dæmdur morðingi sem hlotið hefur viðurnefnið Hollywood-morðinginn í fjölmiðlum vestanhafs var dæmdur til dauða fyrir að myrða tvær ungar konur á fyrsta áratug þessarar aldar. 

Ættingjar kvennanna grétu þegar dómari las upp dóminn yfir Michael Gargiulo í Los Angeles á föstudag. 

Ashley Ellerin, 22 ára, og Maria Bruno, 32 ára, voru báðar stungnar til bana á heimilum sínum í Kaliforníu. Gargiulo náðist þegar annað mögulegt fórnalamb hans, Michelle Murphy sem þá var 26 ára, náði að sleppa undan honum. Hann flúði vettvang en blóð úr honum varð eftir á vettvangi sem gerði lögreglu kleift að hafa uppi á honum. 

Gargiulo var sakfelldur fyrir tvö morð og eina morðtilraun árið 2019. Hann hefur alla tíð haldið sakleysi sínu fram. Hann hefur einnig verið ákærður fyrir morðið á 18 ára konu árið 1993 í Illinois-ríki og er búist við því að réttarhöld í málinu fari fram á næstunni. 

Morðin í Kaliforníu vöktu mikla athygli fyrir þær sakir að annað fórnalambanna, Ellerin, hafði átt að fara á stefnumót með bandaríska leikaranum Ashton Kutcher kvöldið sem hún lést í febrúar 2001. Kutcher bar vitni fyrir dómi í málinu, hann hafði bankað upp á á heimili hennar en þegar engin kom til dyra hafði hann kíkt inn um glugga á heimilinu. Hann sá þá það sem hann hélt að væru vínblettir á gólfinu. Herbergisfélagi Ellerin fann hana látna daginn eftir. Hún hafði verið stungin 47 sinnum. 

Gargiulo myrti Bruno, fjögurra barna móður, í desember 2005. 

Síðast var fangi tekinn af lífi í Kaliforníu árið 2006. Ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, bannaði framkvæmd dauðarefsinga í ríkinu árið 2019. 

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert