Fyrr í kvöld var greint frá ummælum Joe Biden Bandaríkjaforseta þess efnis að misvísandi skilaboð væru að „drepa fólk“ og taldi hann að Facebook bæri vissa ábyrgð þar á. Facebook hefur gefið frá sér tilkynningu um málið og hafnar þar alfarið sökum.
Fram kemur í tilkynningunni að forsvarsmenn Facebook telji í raun að öfugt með málið farið, aðgerðir Facebook í upplýsingagjöf sem tengist faraldrinum bjargi mannslífum, og valdi ekki dauðsföllum. „Við látum ekki ásakanir sem ekki eru byggðar á staðreyndum hafa áhrif á okkur,“ segir meðal annars í tilkynningu Facebook.
Samkvæmt Facebook hafa yfir tveir milljarðar manna skoðað viðurkenndar upplýsingar á vegum vefsins um faraldurinn og bólusetningar, sem er meira en á nokkrum öðrum rafrænum vettvangi.