Þrátt fyrir hratt vaxandi tíðni Covid-19-smita í Bretlandi eru dauðsföll nú margfalt færri en í fyrri bylgjum. Þetta kemur fram í frétt The Telegraph.
Daglegur fjöldi dauðsfalla er í dag einungis einn sextándi af því sem hann var þegar um svipað mörg dagleg smit var að ræða í Bretlandi í fyrri bylgjum.
Í dag stendur sjö daga meðaltal daglegra dauðsfalla af völdum Covid-19 í um 40, samanborið við um 654 hinn 26. desember. Þá var daglegur fjöldi smita um 45 þúsund, svipaður og hann er í dag.
Fjöldi heildardauðsfalla er sem stendur 5,2 prósentum lægri en fimm ára meðaltal síðustu ára samkvæmt samantekt hagstofu Bretlands (Office for National
Statistics (ONS)). Þar af veldur Covid-19 aðeins 1,2 prósentum dauðsfalla.
Innlagnir á sjúkrahús eru um fjórðungur af þeim fjölda sem sást í vetrarbylgjunni í Bretlandi og fjöldi sjúklinga á sjúkrahúsum fimmtungur þess sem hann stóð í í vetur.
Fram undan er „frelsisdagurinn mikli“ í Bretlandi þar sem sóttvarnaaðgerðum verður meira eða minna aflétt.
Afléttingarnar hafa verið gríðarlega umdeildar í ljósi fjölda smita undanfarið vegna hins bráðsmitandi delta-afbrigðis Covid-19.
Neil Ferguson, prófessor í Imperial-háskólanum í Lundúnum, lýsti því yfir að ef daglegum smitum yrði haldið undir 100 þúsund á dag og innlögnum á sjúkrahús undir þúsund á dag myndi hann telja slakanirnar árangursríkar.
Sjö daga meðaltal daglegra sjúkrahúsinnlagna stendur í 616.
Slakanirnar koma sömuleiðis á besta tíma fyrir skólabörn þar sem sumarfrí hefst um þetta leyti í Bretlandi og hiti í kortunum.