Ráðherrar Bretlands fengu að finna fyrir eigin sóttvarnareglum nú rétt í aðdraganda þess að algjörar og mjög umdeildar afléttingar allra sóttvarnaaðgerða koma til framkvæmda.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Rishi Sunak fjármálaráðherra munu vinna í fjarvinnu frá heimilum sínum fram til 26. júlí að sögn talsmanna Downington-strætis eftir að heilbrigðisráðherra Breta, Sajid Javid, greindist jákvæður fyrir Covid-19.
Javid átti langan fund með Johnson á föstudaginn samkvæmt fettaflutningi Sunday Times og sást einnig við hlið nokkurra annarra ráðherra í þinginu í síðustu viku.
Boris Johnson veiktist af Covid-19 og var hætt kominn um tíma á síðasta ári.
Segja má að ráðherrarnir hafi verið tilneyddir í fjarvinnuna en upphaflega stóð til að bæði Johnson og Sunak myndu vinna frá skrifstofum sínum en vera í einangrun þess utan.
Vegna milljóna skólabarna og almenns verkafólks sem hafa þurft að halda sig heima síðustu vikur og mánuði vegna smitrakningarreglna skapaðist verulegur þrýstingur á að ráðherrarnir fylgdu eigin reglum og einangruðu sig á heimilum sínum – enda útsettir fyrir Covid-19-smiti.
Johnson mun vinna frá forsætisráðherrabústaðnum í Chequers, norðvestur af Lundúnum, þar sem hann var staddur þegar smitrakningarteymi NHS hafði samband við hann.