„Greinilega ekki færeyska þokan“

Sólrún segir að mikill áhugi hafi verið hjá Færeyingum í …
Sólrún segir að mikill áhugi hafi verið hjá Færeyingum í gær og margir rifið fram myndavélar og síma til þess að mynda þokuna. Ljósmynd/Jastrid Á Dalbø

„Mér fannst þetta pínu furðulegt í gær, það er búið að vera rosalega hlýtt hérna síðustu daga, síðan er ég að keyra heim úr vinnu og þá sé ég þoku sem líkist rosalega gosmóðunni sem var um daginn þegar ég var á Íslandi,“ segir Sólrún Ásta Haraldsdóttir, sem búsett er í Færeyjum.

Hún segist ekki vera mjög viðkvæm en finnur fyrir því að ekki sé um að ræða hefðbundna færeyska þokuloftið, sem hún segir vera öllu rakara. 

„Þótt ég finni ekki fyrir neinum öndunarfæraeinkennum eða neinu svoleiðis þá finn ég aðeins að það er eitthvað að trufla, ég er aðeins þurr í munninum og loftið er þurrt,“ segir Sólrún í samtali við mbl.is.

Greint var frá gosmóðunni í Færeyjum fyrr í dag.

Ljósmynd/Sólrún Ásta Haraldsdóttir
Ljósmynd/Sólrún Ásta Haraldsdóttir

Færeyskir fjölmiðlar ekki fjallað um gosmóðuna

Sólrún segir að mikill áhugi hafi verið hjá Færeyingum í gær og margir rifið fram myndavélar og síma til þess að mynda þokuna. Hún segir ekki marga átta sig á því að um sé að ræða gosmóðu og að ekkert hafi verið fjallað um það í færeyskum fjölmiðlum sem enn er komið.

„Ég ætlaði að athuga hvort það stæðist að þetta væri gosmóða frá Íslandi og setti þess vegna mynd á Facebook af þessu og fékk strax svör þar. Svo sá ég fleiri staðfestingar um þetta og sá þetta betur með myndum sem fólk var að pósta af gönguferðum upp á fjöll og þess háttar, þá sá ég að þetta er gosmóðan,“ segir Sólrún.

„Ég ætla síðan að fara að vinna í því núna að fara að hafa samband við færeysku fjölmiðlana, vegna þess að þetta er eitthvað sem að fólk ætti að varast ef það er viðkvæmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert