Jeff Bezos, ríkasti maður heims, tók á loft í eigin geimfari í dag. Markmið ferðarinnar var að komast út í geim, og það tókst. Um er að ræða lykilviðburð fyrir geimferðaiðnaðinn en Bezos, ásamt fleirum, vinnur nú hörðum höndum að því að gera geiminn að mögulegum ferðamannastað.
Ferðin tók um tíu mínútur frá flugtaki og til lendingar aftur á jörðu niðri.
Var þetta fyrsta mannaða verkefni fyrirtækis Bezos, Blue Origin. Ellefu mínútna ferð frá vesturhluta Texas, út fyrir Karman-línuna svokölluðu og aftur niður til jarðar. Karman-línan er í 100 kílómetra hæð yfir sjávarmáli og almennt talin marka skilin milli andrúmslofts jarðarinnar og geimsins. Dagsetning ferðarinnar var ekki valin af handahófi, en í dag eru 52 ár frá tunglendingunni.
„Það er bara myrkur hérna uppi,“ sagði Wally Funk, eina kona áhafnarinnar. En ásamt henni fóru upp Jeff Bezos sjálfur, bróðir hans og átján ára Hollendingur, Oliver Daemen, en hann er nú yngsti geimfari sögunnar.
Richard Branson, stofnandi fyrirtækisins Virgin Galactic, var fyrri til í því sem kalla má „meting milljarðamæringanna“ (e. battle of the billionaires) en þeir hafa í raun verið að keppast um hvort fyrirtækið yrði fyrra til að senda mannað geimfar út í geim. Deilt er þó um hvort Branson hafi í raun náð upp í geim.
Blue Origin var sett á laggirnar árið 2000 með það að markmiði að ná því einn daginn að byggja nýlendur í geimnum með gerviþyngdarafli þar sem milljónir manna gætu búið og starfað. Það verður þó að teljast ólíklegt að því markmiði verði náð á næstunni.