Sími Frakklandsforseta mögulega hleraður

Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AFP

Símanúmer Emmanuels Macrons Frakklandsforseta auk númera fjölda ráðherra er að finna á lista yfir númer sem átti að njósna um með hugbúnaðinum Pegasus.

„Við sáum númerið hans að minnsta kosti á listanum. Við getum af augljósum ástæðum ekki gert rannsókn á farsíma Frakklandsforseta til að vita hvort síminn hafi verið sýktur með forritinu,“ segir Laurent Richard, forstjóri uppljóstrunarsamtakanna sem láku gagnagrunni forritsins.

Talsmaður Macrons segir uppljóstrunina sláandi ef hún reynist sönn. Yfir 50.000 farsímanúmer voru skráð á lista yfir númer sem töldust eftirtektarverð af kúnnum ísraelska fyrirtækisins NSO sem framleiðir Pegasus-njósnaforritið. Símanúmer stjórnmálamanna, blaðamanna og fleiri voru á listanum. Önnur nöfn af listanum verða kunngjörð í fjölmiðlum á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert