Twitter hefur tímabundið lokað á reikning þingkonunnar Marjorie Taylor Greene fyrir að birta „blekkjandi“ upplýsingar um kórónuveiruna í færslum sínum.
Samfélagsmiðlarisinn sagði í yfirlýsingu að repúblikaninn myndi ekki geta birt færslur í a.m.k. 12 klukkustundir.
Greene hefur ekki farið leynt með afstöðu sína gegn bólusetningu og grímunotkun í faraldrinum. Í síðustu viku neyddist hún til að biðjast afsökunar eftir að hafa borið grímuskyldu saman við helförina. Henni var í byrjun árs vikið úr þeim þingnefndum sem hún hafði verið skipuð í.
Lokað var á twitterreikning Greene í apríl en síðan opnað fyrir hann aftur. Twitter sagði þá, í kjölfar mikillar gagnrýni meðal repúblikana, að um mistök hefði verið að ræða.
Greene sagði í gærkvöldi að tæknirisar væru að takmarka tjáningarfrelsi með stuðningi Hvíta hússins eftir að reikningi hennar var lokað.