25 látnir í Zhengzou

Flóð í Zhengzhou í Kína.
Flóð í Zhengzhou í Kína. AFP

Hið minnsta 25 manns eru látnir og 200.000 hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna mikilla flóða í borginni Zhengzhou í Kína. Flætt hefur um götur borgarinnar, niður í neðanjarðarlestarkerfið og inn í spítala borgarinnar. Flóðið hefur einnig eyðilagt margar stíflur.

Í neðanjarðarlest náði vatnshæðin upp að bringu farþega sem áttu erfitt með andardrátt en eftir því sem vatnshæðin hækkaði, minnkaði loftrýmið í lestinni. Hundruðum farþega var bjargað úr lestinni af björgunarsveitarmönnum.

Farþegarnir fastir í neðanjarðarlestinni sem flæddi inn í.
Farþegarnir fastir í neðanjarðarlestinni sem flæddi inn í. AFP

„Það var svo mikið vatn á brautarpallinum og það streymdi vatn út úr sprungunum á hurðunum í lestinni,“ sagði einn farþegi við Jiupai News.

„Ég er nokkuð hávaxinn, en eftir um fimm mínútur var vatnið komið upp að bringunni á mér,“ sagði hann og bætti við: „Hávaxið fólk hjálpaði lágvöxnu fólki og börnum upp í sætin. Ég hélt á barni einhvers.“

Flæddi inn í neðanjarðarlest.
Flæddi inn í neðanjarðarlest. AFP

Fjórir eru látnir í nálægri borg, Gongyi, en þar flæddi úr yfirfullum uppistöðulónum.

20.000 björgunarsveitarmenn hafa tekið þátt í að aðstoða 34.000 einstaklinga í flóðunum.

Á þremur dögum rigndi því sem nemur ársmagni af rigningu. Yfirvöld í Kína hafa sagt rigningarnar atburð sem geti einungis gerst á þúsund ára fresti.

Frétt the Guardian.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert