Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna ákvað í dag að fjarlægja Liverpool af heimsminjaskrá UNESCO. Nefndin vísar til framkvæmda á árbakka í borginni, þar á meðal áforma um nýjan keppnisvöll knattspyrnufélagsins Everton, sem myndu skemma yfirbragð svæðisins. Þetta kemur fram á vef BBC.
Borgarstjóra Liverpool finnst ákvörðunin algjörlega óskiljanleg. „Svæðið hefur aldrei verið í betra ásigkomulagi og notið góðs af þeim hundruðum milljóna punda sem hafa verið fjárfest í svæðinu, bæði af hálfu opinberra aðila og einkafyrirtækja,“ segir Joanne Anderson borgarstjóri.
Formaður Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna greindi frá ákvörðuninni í dag. 20 atkvæði voru greidd um tillöguna, þrettán samþykktu hana, fimm andmæltu og tvö atkvæði voru ógild. Í skýrslu nefndarinnar kom fram að framkvæmdir á svæðinu hafi valdið óafturkræfum skaða fyrir ásýnd svæðisins.
Borgin var samþykkt inn á skrána 2004. Sem stendur eru þrjú íslensk svæði á skránni en það eru Vatnajökulsþjóðgarður, Surtsey og Þingvellir.