Gögn úr skýrslu sem sóttvarnastofnun Bandaríkjanna birti í dag sýna að meðallífslíkur í Bandaríkjunum minnkuðu um eitt og hálft ár á síðasta ári. Þessi minnkun er talin afleiðing af kórónuveirufaraldrinum.
Í skýrslunni segir: „Dauðsföll af völdum kórónuveirunnar hafði langsamlega mestu áhrifin á minnkandi lífslíkur við fæðingu milli frá árinu 2019 til 2020.“
2019 voru meðallífslíkur í Bandaríkjunum 78,8 ár, en árið 2020 lækkuðu þær niður í 77,3 ár. Fram kemur í skýrslunni að meðallífslíkur hafi ekki mælst svo lágar síðan árið 2003.
Þetta er þá einnig eitt fárra tilvika þar sem lífslíkur lækka, en frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa lífslíkur aukist nánast hvert einasta ár.
Lífslíkurnar minnka meira hjá körlum en konum. Þær mælast nú 74,5 ár, eða 1,8 árum minni en 2019. Hjá konum minnkuðu líkurnar í 80,2 ár, eða 1,2 árum minna en 2019.
Þá er einnig tekið fram að dauðsföll af völdum slysa, manndrápa, sykursýki og lifrarsjúkdóma hafi einnig aukist.