Norska þjóðin minnist þess í dag að áratugur er liðinn frá martröðinni í Útey og Ósló 22. júlí 2011 þegar Anders Behring Breivik, sem nú heitir Fjotolf Hansen í þjóðskrá, myrti alls 77 manns auk þess að sprengja sprengju í miðborg Óslóar sem olli töluverðu tjóni á byggingum.
Hófst dagskrá klukkan níu í morgun að norskum tíma, klukkan sjö á Íslandi, og stendur í allan dag. Erna Solberg forsætisráðherra ávarpar þjóðina skömmu eftir að minningardagskráin hefst auk þess sem Astrid W.E. Hoem, formaður Ungra jafnaðarmanna, flytur sitt ávarp.
Þá verða nöfn allra fórnarlamba Breivik lesin upp og síðar í dag fer fram minningarguðsþjónusta í dómkirkjunni í Ósló þar sem Kari Veiteberg biskup þjónar fyrir altari. Þar verður einnig viðstaddur Jens Stoltenberg, sem gegndi embætti forsætisráðherra 22. júlí 2011, og flytur hann þjóðinni ávarp sitt.
Að guðsþjónustunni lokinni slá kirkjuklukkur um allan Noreg samtímis og stundvíslega klukkan 19 í kvöld slá klukkur Ráðhússins í Ósló 77 högg. Þá fer fram minningarathöfn í tónleikahöllinni Oslo spektrum kl. 19:55 í kvöld þar sem Haraldur Noregskonungur ávarpar norska þjóð áður en landsþekktir tónlistarmenn á borð við Odd Nordstoga, Dagny, Åge Aleksandersen og Musti stíga á stokk til tónlistarflutnings.
Verður norska ríkisútvarpið NRK með níu klukkustunda langa dagskrá sem hófst rétt fyrir klukkan níu í morgun auk þess sem það mun standa fyrir beinni útsendingu frá samkomunni í Oslo spektrum í kvöld.