Sóttkví gæti kostað Breta 813 milljarða

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Nýr faraldur geisar nú í Bretlandi sem innfæddir kalla „pingdemic“ sem er leikur að orðunum pandemic (faraldur) og ping sem vísar í þessu samhengi til eins konar skeytis sem smitrakningarforrit breskra stjórnvalda sendir til þeirra sem hafa verið í nánd við smitaða. Bresk hugveita áætlar að þessar aðgerðir geti kostað breska hagkerfið 813 milljarða króna.

Delta-afbrigðið dreifist nú hratt um í Bretlandi sem aflétti öllum sóttvarnartakmörkunum þann 19. júlí. Smitrakningarappið er vegna þessa að senda gífurlegan fjölda framlínustarfsfólks, sem stöðu sinnar vegna umgengst mikinn fjölda fólks, í sóttkví. Mikil tímabundin mannekla blasir því við rekstraraðilum í veitingaþjónustu og smásölu.

Veitt fleiri þúsund undanþágur

Hundruð þúsunda starfsmanna hafa fengið skeyti í gegnum forritið um að einangra sig heima. Ríkisstjórnin hefur brugðist við og veitt ríflega 10 þúsund starfsmönnum matvöruverslana undanþágu frá sóttkvínni gegn því að þeir gangist undir veirupróf daglega.

Ráðherrar í Bretlandi hafa verið sakaðir um að gefa misvísandi upplýsingar þannig að sumir ráðherrar haldi því fram að sóttkvíarskeyti frá forritinu feli einungis í sér leiðbeinandi tilmæli. Skrifstofa forsætisráðherra brást skjótt við og leiðrétti þann málflutning og sagði sóttkvína „nauðsynlega“.

Hugveitan CEBR áætlar tjón breska efnahagskerfisins vera 4,6 milljarða Sterlingspunda fari svo að allir sem fái skeyti sæti sóttkví fram í ágúst. Það samsvarar rúmum 813 milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert