Bóluefni virka ágætlega á Delta-afbrigðið

Fjöldi skammta virðist hafa mikið að segja, að því er …
Fjöldi skammta virðist hafa mikið að segja, að því er rannsókn á vef læknatímaritsins New England Journal of Medicine gefur til kynna. AFP

Vörn bóluefna AstraZeneca og Pfizer gegn Delta-afbrigðinu er svipuð og vörn gegn breska afbrigðinu (Alpha-afbrigðinu), að því er rannsókn sem birtist á vef læknatímaritsins New England Journal of Medicine leiðir í ljós.

Þar kemur fram að eftir tvo skammta af bóluefni Pfizer fáist 93,7% vörn gegn breska afbrigðinu en vörnin mælist 88,0% gegn Delta-afbrigðinu. Tveir skammtar af AstraZeneca virðast þá veita 74,5% vörn gegn Alpha-afbrigðinu en 67,0% vörn gegn Delta-afbrigðinu. 

Viðfangsefni rannsóknarinnar var að kanna vörn Pfizer- og AstraZeneca-bóluefnisins gegn einkennasjúkdómnum Covid-19, sem Delta-afbrigðið veldur.

Vörnin mun minni eftir einn skammt

Vörn sem bóluefnin veita gegn Delta-afbrigðinu virðist þá vera mun minni eftir einn skammt heldur en tvo skammta; Pfizer og AstraZeneca veita aðeins 30,7% vörn gegn Delta-afbrigðinu eftir einn skammt en vörnin er 48,7% gegn Alpha-afbrigðinu að fengnum einum skammti.

Af þessu er í rannsókninni dregin sú ályktun að heppilegast væri að bólusetja tvisvar í viðkvæmum löndum á borð við Indland, þar sem Delta-afbrigðið hefur leikið lausum hala og valdið yfir fjögur þúsund dauðsföllum.

Delta-afbrigðið greindist fyrst á Indlandi í desember árið 2020 og varð um miðjan apríl árið 2021 útbreiddasta afbrigði veirunnar; í maí hafði það greinst í 43 löndum í sex heimsálfum. Afbrigðið hefur þá einnig greinst í miklum mæli á Bretlandi og er það talið vera vegna mikillar flugumferðar frá Indlandi til Bretlands.

Mest fór fyrir Alpha-afbrigðinu frá janúar til júní 2021 en það greindist fyrst í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka