Forseti gerir sjálfan sig að forsætisráðherra líka

Kais Saied, forseti Túnis, tilkynnir löndum sínum að hann hafi …
Kais Saied, forseti Túnis, tilkynnir löndum sínum að hann hafi formlega leyst upp þing landsins og gegni nú einnig embætti forsætisráðherra. AFP

Kais Saied, forseti Túnis, hefur leyst upp þingið þar í landi og vikið forsætisráðherra landsins, Hichem Mechichi, úr starfi. Gríðarleg mótmæli hafa verið undanfarið í Túnis þar sem ráðandi flokki Mechichi er mótmælt og viðbrögðum hans við heimsfaraldri kórónuveiru.

Bílflautur voru þeyttar á götum stærstu borga landsins eftir að forsetinn tilkynnti um ráðagerðina í beinni útsendingu, í kjölfar neyðarfundar í höll hans.

Forsætisráðherrann og samflokksmenn hans hafa fordæmt útspil forsetans og segja hann sekan um valdarán. 

Útspil sem sprettur upp úr pólitískri óöld

„Stjórnarskráin heimilar ekki að þing sé leyst upp en hún heimilar engu að síður að forsetinn geri hlé á störfum þess,“ sagði Saied forseti í ávarpi og vísaði þar með til 80. greinar stjórnarskrár Túnis. 

Saied sagði einnig að hann tæki við starfi forsætisráðherrans tímabundið með fulltingi ríkisstjórnar sem leidd yrði af einhverjum bandamanni hans. 

Þótt nú sé orðinn áratugur síðan einræðisherra landsins, Zine El Abidine Ben Ali, var steypt af stóli í „arabíska vorinu“ er enn algengt að miklar sviptingar verði í pólitísku landslagi Túnis. Illa hefur gengið síðan árið 2011 að glæða fjársvelta innviði lífi. 

Síðan Saied var kjörinn forseti árið 2019 hefur óöld geisað í túnisku stjórnkerfi, sem hverfist aðallega um deilur hans við Mechichi forsætisráðherra og Rached Ghannouchi, forseta þingsins. Ríkisráðsfundum hefur verið aflýst oft og tíðum vegna þessa og illa hefur gengið að samþykkja fjárveitingar til bráðnauðsynlegrar innviðauppbyggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert