Stonehenge næst undir hníf UNESCO

Stonehenge varð til í nokkrum áföngum og hófst sá fyrsti …
Stonehenge varð til í nokkrum áföngum og hófst sá fyrsti fyrir um 5.000 árum. Þetta svipmikla forna mannvirki, hver sem tilgangur þess upphaflega var, á nú á hættu að hverfa af heimsminjaskrá UNESCO vegna fyrirhugaðra jarðganga steinsnar frá. Ljósmynd/Wikipedia.org/Án höfundarmerkingar

Næsta skelfing Breta hvað heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna snertir, eftir að missa Liverpool þaðan, gæti verið að hið eldforna mannvirki Stonehenge fylgdi í kjölfarið. Þetta hafa talsmenn stofnunarinnar, UNESCO, nú ámálgað við breska ráðherra og tjáð þeim að Stonehenge eigi á hættu að færast á listann yfir menningarverðmæti í háska. Af þessu segir breska blaðið The Guardian.

Sú skráning er almennt undanfari þess að verðmætin hverfi af heimsminjaskránni, en ástæðan í þessu tilfelli er fyrirhuguð jarðgöng steinsnar frá Stonehenge sem breski samgönguráðherrann Grant Shapps gaf nýlega samþykki sitt fyrir. Er þar ætlunin að grafa í jörð A303-brautina sem liggur fram hjá þessu eljuverki margra kynslóða á Salisbury-sléttunni í Wiltshire.

Naumar fjárveitingar og hlédrægni

Þegar UNESCO tilkynnti breskum ráðamönnum fyrirætlun sína fyrr í sumar fylgdi þar sögunni að stofnunin hygðist í sama mund grandskoða stöðu annarra heimsminjaskráðra fyrirbæra í Bretlandi í kjölfarið. Þau eru alls 31 talsins og má þar nefna Westminster-höllina, Kew-garðana, Tower of London og námurnar í Cornwall.

Chris Blandford, forseti bresku heimsminjastofnunarinnar, World Heritage UK, segir bresk stjórnvöld áhugalítil um velferð þeirra staða og fyrirbæra í landinu sem skráð eru á heimsminjaskrá UNESCO og mörg hver standi fullkomlega jafnfætis fyrirbærum á borð við egypsku pýramídana eða Taj Mahal-höllina. Kvartar Blandford hvort tveggja yfir naumum fjárveitingum og mikilli hlédrægni ráðherra við að gera sem mest úr breskum heimsminjum.

Valdi óbætanlegu tjóni

Fyrirhuguð jarðgöng A303-brautarinnar eru 3,3 kílómetra löng og munu að öllum líkindum kosta 1,7 milljarða punda, upphæð sem nemur tæpum 300 milljörðum íslenskra króna. Varaði UNESCO Shapps samgönguráðherra við, þegar í nóvember í fyrra, og tjáði honum að yrðu jarðgöngin að veruleika, að minnsta kosti í þeirri útfærslu sem nú er gert ráð fyrir, mættu Bretar gera ráð fyrir að Stonehenge yrði fært yfir á lista yfir menningarverðmæti í hættu þegar árið 2022.

Að sögn skrásetjara heimsminjaskrárinnar hjá Menningarmálastofnuninni mun lagning ganganna valda óbætanlegu tjóni á svæði sem hefur „ómetanlegt gildi fyrir alla heimsbyggðina“.

The Guardian

The GuardianII (göng „fáránleg heimska“)

Daily Mail

The Art Newspaper

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert