Þriðja líkið er fundið

K2 er næst hæsta fjall heims.
K2 er næst hæsta fjall heims. AP

Þriðja líkið hefur fundist á K2. Þar með er talið að lík allra mannanna þriggja, þar á meðal John Snorra, sem hefur verið saknað frá fimmta febrúar séu fundin. 

Þegar hefur verið staðfest að fyrsta líkið sem fannst hafi verið af Muhammed Ali Sadpara, félaga Johns Snorra.

Þegar seinna líkið fannst var talið líklegt að það væri John Snorri en Juans Pablos Mohrs sem var með þeim var einnig saknað. Voru þeir báðir klæddir í gulan og svartan jakka en erfitt hefur reynst að bera kennsl á þá vegna hélu.

Nú þegar þrjú lík hafa fundist er talið ljóst að lík allra þriggja mannanna séu komin í leitirnar. Þetta kemur fram á vef Explorer. Líkin eru sögð hafa fundist við flöskuhálsinn svokallaða fyrir ofan fjórðu búðir K2. 

Flöskuhálsinn er 200 metra hár ísveggur í 8.200 metra hæð en fjallið er 8.611 metrar. Það hrynur reglulega úr veggnum og því þurfa göngumenn að koma sér hratt og örugglega í gegnum þennan kafla.

Sajid Sadpara, sonur Alis Sadpara, og félagar hans, þeir Elia Saikaly og Pasang Kaji Sherpa, komust að fjórðu búðunum fyrr í dag. 

Er þetta í fyrsta skiptið í sex mánuði, frá því að John Snorri og félagar hurfu, sem fjallgöngumenn hafa komist hærra en að þriðju búðum fjallsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert