Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra birti færslu á Twitter síðu sinni nú í dag þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af mannréttindabrotum og grundvallarfrelsisskerðingum sem íbúar Kúbu búa við.
Einnig kemur fram í tístinu að Guðlaugur tekur undir ákall þess efnis að friðsömum mótmælendum verði sleppt úr haldi, en margir mótmælendur hafa verið handteknir. Einnig tekur hann undir mikilvægi þess að netsambandi verði komið aftur á í landinu og að fjölmiðlar njóti frelsis í störfum sínum.
„Það er bara augljóst að fólkið á Kúbu er komið með nóg af áralangri ógnarstjórn þar í landi. Þegar stjórnvöld virða grundvallar mannréttindi að vettugi og fremja ítrekuð mannréttindabrot þá eru þetta einu bjargir almennings,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.
Gravely concerned about violations of human rights and fundamental freedoms in #Cuba. I echo calls for the immediate release of peaceful protesters detained in Cuba, restoration of internet access, and media freedom.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) July 29, 2021
Ástandið á Kúbu hefur verið slæmt undanfarnar vikur, en íbúar hafa mótmælt ástandinu og ríkisstjórn landsins harðlega. Mbl.is hefur áður greint frá því hvernig þúsundir Kúbverja flykktust á götur og mótmæltu bágu efnahagsástandi og ólýðræðislegum stjórnarháttum þar í landi.