Páll hafi glatað sjálfstæði sínu

Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins
Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins

Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, er gagnrýninn á stöðu dómstólsins og núverandi forseta hans, Pál Hreinsson, í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Baudenbacher segir vægi dómstólsins hafa minnkað þar sem landsdómstólar EFTA-ríkjanna leiti í minna mæli en áður eftir áliti EFTA-dómstólsins með úrlausnarefni. Baudenbacher gagnrýnir einnig Pál Hreinsson, eftirmann sinn í dómstólnum, í greininni. 

Baudenbacher segir að verkefni Páls fyrir íslensk stjórnvöld hafi orðið til þess að hann hafi glatað sjálfstæði sínu. Á síðasta ári vann Páll sérfræðiálit um heimildir sóttvarnayfirvalda til að grípa til opinberra sóttvarnaráðstafana vegna Covid-19. Verkefnið vekur furðu Baudenbacher sem segir m.a.:  „Hafi Páll Hreinsson nokkurn tímann verið sjálfstæður hefur hann með þessu glatað sjálfstæði sínu.“ 

„Það þýðir að unnt er að vefengja gildi hvers þess dóms sem kveðinn er upp með aðkomu Páls Hreinssonar,“ segir Baudenbacher enn fremur um Pál. 

Veikt stöðu EFTA-stoðarinnar gagnvart ESB

Baudenbacher furðar sig einnig á því að íslenskri dómstólar leiti ekki til EFTA-dómstólsins í sama mæli og áður. 

„Íslensku dómstólarnir, sem áður vísuðu ýmsum mikilvægustu málum sínum til EFTA-dómstólsins og framfylgdu úrskurðum hans af samviskusemi, hafa nánast hætt að vísa málum til Lúxemborgar, að því er virðist af því að þeir gera sér grein fyrir því sem nú er upp á teningnum,“ segir Baudenbacher m.a. í greininni. 

„Norsku dómstólarnir halda hins vegar vísunum sínum áfram. Ólíkt því sem gerist á Íslandi eru norsku dómstólarnir þéttskipaðir fyrrverandi kerfiskörlum, sem eru ósjaldan reiðubúnir að hlíta pólitískum merkjasendingum og dæma ríkinu í hag. Séð frá því sjónarhorni eru viðhorf þeirra skiljanleg.

EFTA-dómstóllinn hafði umtalsverð áhrif á dómstóla Evrópusambandsins áður fyrr. Nú hafa þessir dómstólar nánast hætt öllum réttarfarslegum samskiptum við EFTA-dómstólinn. Þetta hefur veikt stöðu EFTA-stoðarinnar gagnvart ESB. Hæpið er að úrskurður eins og sá sem kveðinn var upp í Icesavemálinu árið 2013 hlyti samþykki Evrópusambandsins,“ segir Baudenbacher. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert